Þrjátíu og níu nýstúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni nýliðinn laugardag, þann 6. júní. Í samræmi við fjöldatakmarkanir á þeim tíma voru 200 manns á útskriftinni, nýstúdentar og fjölskyldur þeirra, starfsmenn skólans sem og nokkrir aðrir sem komu að hátíðardagskránni svo og einnig tæknimenn frá Sonik þar sem athöfninni var streymt.
Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi en hún var með aðaleinkunnina 9,52 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum. Er það níundi besti árangur nýstúdents á stúdentsprófi í sögu skólans. Semi dux nýstúdenta var Anna Björg Sigfúsdóttir frá Borgarfelli í Vestur-Skaftafellssýslu með aðaleinkunnina 9,37. Hlutu þær sem og fjöldi annarra nýstúdenta viðurkenningar kennara og fagstjóra skólans fyrir afburða árangur í hinum ýmsu greinum.
Nýstúdentar sem setið höfðu í stjórn nemendafélagsins Mímis hlutu og viðurkenningu fyrir störf sín. Eins hlutu Þorfinnur Freyr Þórarinsson fráfarandi stallari sérstaka stallaraviðurkenningu og Helga Margrét Óskarsdóttir fráfarandi varastallari sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans og nemendafélagsins.
Veitt var úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, fyrrverandi skólameistarahjónana. Styrki hlutu: Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi, nýstúdent af náttúruvísindabraut, Anna Björg Sigfúsdóttir frá Borgarfelli í Vestur-Skaftafellssýslu, nýstúdent af náttúruvísindabraut, Guðrún Karen Valdimarsdóttir frá Mosfellsbæ, nýstúdent af náttúruvísindabraut og Laufey Helga Ragnheiðardóttir frá Langholtskoti í Hrunamannahreppi, nýstúdent af náttúruvísindabraut.
Dux scholae veturinn 2019-2020 er Guðný Salvör Hannesdóttir (Gísella) frá Arnkötlustöðum í Rangárþingi ytra með einkunnina 9,7 sem er vegið meðaltal áfanga vetrarins með einum aukastaf. Semi dux scholae nýliðins vetrar er Helga Margrét Óskarsdóttir með einkunnina 9,6.
Á útskriftinni var Fanneyju Gestsdóttur frá Hjálmstöðum í Laugardal þökkuð vel unnin störf, en í ríflega áratug hefur hún starfað sem þvottatæknir í skólanum. Hún lætur af störfum fyrir aldurssakir.