4.352 afbrot á borði lögreglunnar árið 2017

Töluverð aukning varð á málafjölda hjá lögreglunni á Suðurlandi á árinu 2017 sé miðað við fyrri ár. Alls voru 4.352 afbrot til meðferðar hjá lögreglunni á árinu.

Eins og jafnan áður tengjast flest málin umferðinni en umferðarlagabrotum fjölgar jafnt og þétt á milli ára. Umferðarlagabrotin voru 3.643 árið 2017 en 3.274 árið áður og 2.841 árið 2015.

Kærum vegna ástands ökutækja og hleðslu, þyngd og stærð ökutækja fjölgar ár frá ári. Þá er aukning í fjölda þeirra sem aka undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Veruleg aukning er í fjölda þeirra mála er snúa að réttindaleysi ökumanna og akstri sviptur ökuréttindum.

Aukið eftirlit hefur forvarnargildi
Hegningarlagabrotum fækkaði hins vegar milli áranna 2015 og 2016 en fjölgar síðan aftur á árinu 2017. Alls kom 491 hegningarlagabrot inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi á síðasta ári. Þau voru hins vegar 530 árið 2015.

Flest hegningarlagabrotin eru þjófnaðarmál en 124 þjófnaðir voru kærðir í fyrra. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að umtalsverð óskýrð fækkun sé í flokki auðgunarbrota frá árinu 2015 en ákveðnar vísbendingar eru um að aukið eftirlit í uppsveitum Árnessýslu hafi verulegt forvarnargildi og því fækki innbrots og þjófnaðarmálum í sumarhúsahverfum þar.

Fjöldi eignaspjalla stendur nokkuð í stað milli ára en færri mál er varða nytjastuld koma til kasta lögreglu. Alls voru 79 eignaspjöll kærð til lögreglu en aðeins í einu tilviki var um meiriháttar skemmdarverk að ræða.


sunnlenska.is/Guðmundur Karl

70% fjölgun á kynferðisbrotum
Kynferðisbrotum fjölgar um nærri 70% milli áranna 2016 og 2017. Mörg þessara mála varða brot gegn börnum og fötluðum og í vinnslu þeirra fer umtalsvert meiri tími eðli málsins samkvæmt. Alls voru kynferðisbrotin 42 talsins og þar af voru níu nauðganir kærðar til lögreglunnar á árinu.

Málum er varða heimilisofbeldi fjölgar úr 40 málum á árinu 2016 í 51 á árinu 2017. Gerendur eru oftast karlmenn en þolendur konur.

Sex stórfelldar líkamsárásir kærðar
Líkamsárásarmálum fækkar frá árinu 2016 en 67 líkamsárásir voru kærðar árið 2017. Mestu munar þar um minniháttar líkamsárásir en aukning er hinsvegar í stórfelldum líkamsárásum. Alls voru sex stórfelldar líkamsárásir kærðar árið 2017 en ein árið 2016.


Frá leit að týndum manni í Hvítá. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Alvarlegum slysum fjölgar
Alvarlegum slysum og mannslátum fjölgar í umdæminu. Í mörgum þessara slysa er um að ræða erlenda ferðamenn á ferð um umdæmið. Alls létust þrettán manns í slysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi árið 2017, fimm Íslendingar og átta erlendir ríkisborgarar. Þrír létust í umferðarslysum og þrír drukknuðu. Í öllum þessum tilvikum var um erlenda ríkisborgara að ræða.

Flest útköllin á laugardögum
Útköll lögreglu dreifast nokkuð jafnt á vikudagana og enginn tími sólarhringsins er undanskilinn. Þó má segja að flest útköllin séu á laugardögum og lögreglan er oftast kölluð út milli klukkan 1 og 3 á nóttunni. Verkefnin eru um allt umdæmið en meira en helmingur útkallanna eru á Selfossi, í Hveragerði og í póstnúmerinu 801 í Árnessýslu.

Fyrri greinÁsta og Sandra Dís: Framkvæmdir við skóla á Selfossi
Næsta greinOpið hús í leikhúsinu við Sigtún