Stjórn Auðbjargar ehf. og Atlantshumars ehf. í Þorlákshöfn hafa ákveðið að segja upp mestum hluta af starfsfólki í landvinnslu fyrirtækjanna í Þorlákshöfn, alls um 40 manns.
Ákvörðunin var tilkynnt á fundi með starfsmönnum í gær.
Í tilkynningu frá stjórninni segir að í ljósi þess að humarvertíð lýkur nú í nóvemberlok eftir 8 mánaða tímabil og vegna fyrirsjáanlegs verkefnaskorts og versnandi rekstrarskilyrða fyrirtækjanna neyðist hún til þess að grípa til þessara aðgerða.
Það megi rekja til þess að mikill niðurskurður hafi orðið á bolfisk- og flatfiskheimildum og það hafi víðtæk áhrif á starfsemina og minnkandi hráefni til vinnslu. Fyrirtækin hafa verið í humarvinnslu og einnig í saltfisk- og flakavinnslu og fengið hráefni bæði af eigin skipum og af fiskmörkuðum. Tveimur af fjórum skipum fyrirtækjanna verður lagt nú í lok humarvertíðar í ljósi þess að verkefnastaðan er engin.
“Það er öllum ljóst, sem vilja vita, að allt of lítið framboð er á fiski á Íslandi í dag og verðið á fiskmörkuðum af þeim völdum mjög hátt. Eins er ekki hægt að leigja til sín kvóta þar sem allir eiga nóg með sig. Á meðan stjórnvöld vilja ekki auka kvótann og hleypa meira lífi í iðnaðinn þá er allt nánast frosið í greininni. Og til að bæta gráu ofan í svart þá þarf sjávarútvegurinn að lifa við stanslausar hótanir ríkisstjórnarinnar um að breytingar á kvótakerfinu sem myndu kippa rekstrargrundvellinum endanlega undan fyrirtækjunum. Það er þá ekkert annað í stöðunni en að draga saman seglinn og bíða og sjá til hvort rofi til á ný,” segir í tilkynningunni.
Auðbjörg er rótgróið 39 ára gamalt fyrirtæki og hefur að mestu einbeitt sér að útgerð og saltfiskvinnslu. Atlantshumar er 3 ára gamalt fyrirtæki (áður Humarvinnslan) og er í eigu Auðbjargar. Atlantshumar hefur sérhæft sig í vinnslu humars, en auk humarvinnslu hefur fyrirtækið einnig verið í flakavinnslu og eitthvað unnið flatfisk til að skjóta fleiri stoðum undir reksturinn. Hjá bæði Auðbjörgu og Atlantshumar hafa starfað á bilinu 80-120 starfsmenn til sjós og lands. Starfsstöð beggja fyrirtækja hefur frá stofnun verið í Þorlákshöfn og fyrirtækin verið meðal stærstu atvinnuveitenda í bænum.