Að tillögu forsætisráðherra samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í gær að 40 milljónum króna verði varið til uppbyggingar í stækkuðu friðlandi í Þjórsárverum.
Samkvæmt ákvæði laga um þjóðlendur skal verja tekjum af leyfum til nýtingar lands innan þjóðlenda til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna eftir nánari ákvörðun forsætisráðherra. Alls eru 923 milljónir króna til ráðstöfunar af tekjum af leyfum til nýtingar lands innan þjóðlendna.
Þjórsárver voru friðlýst árið 1981 og er nú unnið að stækkun friðlandsins. Eftir stækkunina nær friðlýsta svæðið yfir rústamýrarvist Þjórsárveranna og allan Hofsjökul. Stækkunin er í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009 – 2013 og þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svonefnda Rammaáætlun.
Fjárhæðinni verður varið til uppbyggingar innan þjóðlendnanna sem liggja innan hins fyrirhugaða stækkaða friðlýsta svæðis í Þjórsárverum. Þær eru Hrunamannaafréttur, Flóa- og Skeiðamannaafréttur, Gnúpverjaafréttur og Holtamannaafréttur.
Þjórsárver eru ein víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu og mesta varpstöð heiðagæsarinnar í heimi og skipar því sess meðal helstu náttúruperla landsins.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að mikilvægt sé að samfara friðlýsingu svæða fylgi fjármagn sem skapar svigrúm til uppbyggingar og verndunar í senn og þannig sé tryggt að sú náttúra sem viðkomandi friðlýsing taki til verði varðveitt fyrir komandi kynslóðir eins og fram kom í umfjöllun á fundi samstarfsnefndar um málefni þjóðlendna 17. apríl sl.
Fyrir liggur að ráðast þarf í töluverða uppbyggingu samhliða fyrirhugaðari stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Má þar nefna verkefni sem tengjast gerð og merkingu göngustíga, auknu eftirliti og landvörslu, ásamt annarri uppbyggingu í tengslum við umferð og aðgengi almennings.