40 tilvik um utanvegaakstur á sama svæðinu

Að Fjallabaki. Mynd úr safni. Ljósmynd/UST

Í ár voru á fjórum mánuðum skráð um 40 tilvik utanvegaaksturs á Fjallabakssvæðinu. Utanvegaakstur er ein mesta ógnin við verndargildi friðlandsins að Fjallabaki.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að nú á haustmánuðum og í byrjun vetrar hafi orðið þó nokkur tilvik þar sem ekið er utan vega til að sniðganga skafla á vegum.  Einnig er um ótímabæran akstur á snævi þakinni jörð að ræða þar sem ekið er út fyrir vegi án þess að jörð sé frosin eða snjóþekja nægilega þykk og traust til að koma í veg fyrir skaða.

Akstur utan vega er bannaður samkvæmt lögum um náttúruvernd og ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum.

Ganga verður úr skugga um að jörð sé frosin og snjóþekja nægilega þykk og traust svo tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir skaða. Ef einhver vafi leikur á að umræddar aðstæður til aksturs séu til staðar, skal náttúran ávallt njóta vafans.

Umhverfisstofnun biður ökumenn að huga að almennri aðgæsluskyldu þegar ferðast er um náttúru Íslands, meta aðstæður hverju sinni þegar ekið er á snjó utan vega. Einnig hvetur Umhverfisstofnun almenning til að tilkynna til lögreglu eða Umhverfisstofnunar á ust@ust.is  ólöglegan akstur utan vegar.

Fyrri greinKynningarfundur um viðauka við landsskipulagsstefnu
Næsta greinJólagjöfin í ár er sunnlensk upplifun