Umræður hafa vaknað í Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna heræfingar sem fyrirhuguð er í Þjórsárdal síðar í mánuðinum og hefur skrifstofa sveitarfélagsins fengið fyrirspurnir vegna þess.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Dagana 19. og 20. október verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna varnaræfingar Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture í Noregi. Von er á tíu herskipum hingað til lands með alls 6 þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svokallaðrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Björgvin Skafti Bjarnason oddviti segir að málið hafi ekki verið borið undir sveitarstjórn og telur ekki ástæðu til að gera veður út af því í ljósi fjöldans sem tekur þátt og fyrri heræfinga í Þjórsárdal. Hann hefur þó þegið boð um að fulltrúi frá ríkislögreglustjóra komi og skýri út hvað fyrirhugað er að gera.