Það er greinilega kominn vorhugur í ökumenn á Suðurlandi því lögreglan kærði 41 ökumann fyrir hraðakstur síðustu vikuna.
Þar að auki voru tíu ökumenn kærðir fyrir að aka án ökuréttinda, fimm voru stöðvaðir grunaðir um ölvun og þrír fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sex umferðaróhöpp eru skráð og í þremur þeirra urðu slys á fólki.
Þrjú fíkniefnamál komu upp og eru til rannsóknar og skráð hegningarlagabrot eru á annan tuginn og eru þau einnig til rannsóknar. Þar má nefna líkamsárásir, þjófnaði og eignaspjöll.
Í þessari viku mun lögreglan á Suðurlandi leggja sérstaka áherslu á að kanna rekstrareyfi þeirra sem stunda fólksflutninga í atvinnuskyni og fylgjast með réttindum ökumanna þeirra. Í síðustu viku voru tveir ökumenn kærðir fyrir farþegaflutninga án tilskilinna leyfa.
Af öðrum atvinnutækjum er það að segja að sjö ökumenn voru kærðir fyrir ásþungabrot, þrír fyrir frágang á farmi og tveir fyrir ranga notkun ökutækja, eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar.