Af 180 nemendum í Menntaskólanum að Laugarvatni eiga 42 nemendur systkini í skólanum. Með öðrum orðum er þar um að ræða 21 systkinapar.
Alls eiga því rúm 23% nemenda systkini við skólann. Þetta kemur fram í frétt á vef skólans en Páll M. Skúlason, aðstoðarskólameistari, sagði í samtali við sunnlenska.is að ekki lægi nein tölfræði fyrir um hvort þetta sé meiri eða minni fjöldi en einhverntíma áður.
„Það hefur ávallt verið talsvert mikið um að allt upp í fjögur, fimm systkini fari hér í gegn. Þá er ævinlega mikið um að börn ML-inga komi hér 20-30 árum á eftir foreldrunum. Í það minnsta er ég farinn að sjá gömul andlit koma hér á haustin með bráðmyndarleg afkvæmi sín,“ segir Páll.
Páll segir að ein af ástæðunum fyrir því að systkini komi hvert á fætur öðru í skólann sé ánægja nemenda með dvölina á Laugarvatni. „Héðan fer fólk sem hefur fengið afskaplega mikilvæga félagslega skólun, ekki síður en þá sem formlegt námið veitir. Nemendur okkar virðast vera ánægðir með dvölina hér og ef börnin eru ánægð, eru foreldrarnir það einnig. Eldri systkini segja þeim yngri frá reynslu sinni og þannig viðhelst þessi vegferð.“