Allir þeir sem sækja um byggingaleyfi á árinu 2015 í Hveragerði munu fá 50% afslátt af gatnagerðargjaldi samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar sem gerð var í byrjun janúar.
Ennfremur hefur verið samþykkt að fella niður gjald fyrir byggingarétt af öllum lóðum í Hveragerði sem sótt verður um á árinu 2015.
Á vef bæjarins kemur fram að enn eru lausar til umsóknar nokkrar lóðir fyrir par- og raðhús við Dalsbrún og einbýlishúsalóðir við Smyrlaheiði.
Bæjarstjórn hefur jafnframt hug á að koma til móts við óskir um fjölbreyttara framboð lóða með gerð deiliskipulags á Grímsstaðareitnum svokallaða en þar er nú verið að skipuleggja fjölda nýrra lóða þar sem gert er ráð fyrir bæði einbýlishúsum, par-, rað- og fjlölbýlishúsum. Lóðir þessar munu koma til úthlutunar á árinu 2015 ef allt gengur að óskum.
Grímsstaðareiturinn afmarkast af Breiðumörk, Þórsmörk, Reykjamörk og Þelamörk og eru íbúar hvattir til þess að fylgjast vel með þeirri skipulagsvinnu sem þar fer nú fram.