Alls hljóta 39 verkefni styrki til eflingar atvinnulífs og nýsköpunar á Suðurlandi, en þeim er úthlutað af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga að þessu sinni.
Heildarúthlutun er 50 milljónir króna en umsóknirnar voru 140 talsins og hafa aldrei verið fleiri.
Hæsta styrkinn, átta milljónir króna, hlutu Rannsóknarmiðstöðin og Háskólafélag Suðurlands, til uppbyggingar rannsóknartengds framhaldsnáms í jarðskjálftafræði. Heimaframleiðsla og sala sauðfjárafurða í Skaftárhreppi, hlaut næst hæsta styrkinn, 4 milljónir.
Styrkveitingar á vegum SASS eru fjármagnaðar með fjármagni úr Sóknaráætlun Suðurlands, Vaxtarsamningi Suðurlands og af SASS.
Lista yfir verkefnin sem hlutu styrki má sjá í nýjasta tölublaði Sunnlenska.