Í dag er 51 einstaklingur í einangrun vegna COVID-19 á Suðurlandi og 84 eru í sóttkví eftir að hafa verið útsettir fyrir smiti.
Flestir eru í einangrun á Selfossi, þrettán talsins, og þar eru 20 manns í sóttkví. Fimm eru í einangrun í Bláskógabyggð og fjórir í Hveragerði en annars dreifist fjöldinn um allt umdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, til dæmis eru 9 í einangrun í Vestmannaeyjum og þar eru 30 í sóttkví.
Þá eru 105 í skimunarsóttkví á Suðurlandi eftir að hafa farið í sýnatöku á landamærunum.
Þetta kemur fram í tölum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Á upplýsingafundi Almannavarna í morgun kom fram að 96 hefðu greinst með COVID-19 innanlands í gær, en talan gæti hækkað þar sem ekki er búið að fara í gegnum öll sýnin sem tekin voru í gær.