Í þessari viku munu að minnsta kosti 552 Sunnlendingar fá fyrri bólusetningu vegna COVID-19 og hátt í 400 manns fá seinni bólusetninguna.
Í fyrstu bólusetningu í lok desember voru 390 Sunnlendingar bólusettir, þar af voru 330 eldri borgarar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Seinni skammturinn fyrir þennan hóp kom síðasta mánudag og verður hópurinn bólusettur í þessari viku.
Fyrir næsta hóp sem verður bólusettur koma 92 lyfjaglös á Suðurland á morgun að sögn Elínar Freyju Hauksdóttur, umdæmislæknis sóttvarna á Suðurlandi, og úr hverju glasi nást sex skammtar, en ekki fimm eins og í fyrstu bólusetningunni.
„Við fengum nýjar sprautur með í þetta sinn sem tæma sig betur og þar af leiðandi verður ekkert ónýtt efni eftir í sprautunni þegar skammturinn er gefinn og því náum við auðveldlega sex skömmtum úr hverju glasi,“ segir Elín Freyja.
„Þetta verða þá 552 skammtar sem ætti að duga fyrir alla einstaklinga sem fá heimahjúkrun, nýta dagdvöl eða búa á sambýli á Suðurlandi. Hafni einhver bólusetningu eða er ófær um að þiggja slíka vegna heilsufars, þá er skammturinn nýttur fyrir eldri borgara, eldri en 70 ára, sem er forgangshópurinn okkar þessa vikuna,“ segir Elín Freyja ennfremur.
Auk þess verða skammtar sem ekki nýtast hópnum sem bólusettur var í desember nýttir, þar sem einhverjir eru komnir á lífslokameðferð eða eru fallnir frá síðan fyrsti skammtur var gefinn. Þá kemur alltaf maður í manns stað og skammturinn nýttur.
„Í næstu viku fáum við svo bóluefni til að bólusetja framlínustarfsmenn hjá okkur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem sagt starfsmenn sem eru í aukinni hættu á að smitast við störf sín. Vegna skorts á bóluefni höfum við einungis bólusett um 70 heilbrigðisstarfsmenn á öllu Suðurlandi, en við vonum að geta fjölgað í þeim hópi í næstu viku, og þannig tryggt áframhaldandi heilbrigðisþjónustu í umdæminu,“ segir Elín Freyja að lokum.