Lögreglumenn á Suðurlandi höfðu í nógu að snúast síðastliðna viku en um 580 verkefni eru skráð í dagbókina.
Lögeglan stöðvaði 63 ökumenn vegna hraðaksturs, 6 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og 4 ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis. Fjórtán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á tímabilinu.
Skólar eru byrjaðir og biður lögreglan ökumenn að aka sérstaklega varlega í kringum skóla og íþróttasvæði þar sem mikið er af nýliðum í umferðinni, þ.e. ungum börnum sem eru að fóta sig í fyrsta skipti utan verndargirðinga leikskóla og því mikilvægt að þeir sem eldri eru og með meiri reynslu úr umferðinni taki tillit til þessara ungmenna og sýni þeim tilhlýðilega virðingu með því að aka varlega.
Þá bendir lögreglan einnig á að nú er farið að rökkva töluvert og orðið myrkur yfir blá nóttina og því mikilvægt að fara yfir ljósabúnað á bifreiðum og hafa hann í lögmætu ástandi.