Um 600 kórónuveirupróf voru tekin á Selfossi í dag, að stærstum hluta hraðpróf vegna einstaklinga sem eru í smitgát.
Löng bílaröð lá frá kjallara Kjarnans á Selfossi í morgun þar sem sýnatakan fer fram, en allt gekk vel fyrir sig. Fjöldi smita hefur aukist á Selfossi síðustu daga og hafa meðal annars komið upp smit í Fjölbrautaskóla Suðurlands, báðum grunnskólunum og hjá handknattleiks- og knattspyrnudeildum Selfoss.
„Þetta voru nálægt 600 próf sem voru tekin í dag, aðallega tengd Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sunnulækjarskóla og einum árgangi í Vallaskóla en einnig hópar sem tengjast handboltanum og fótboltanum. Síðan komu einhverjir í einkennapróf sem vissu að við vorum með sýnatöku í dag. Þetta voru mest hraðpróf en einnig einkennasýnatökur og sóttkvíar sýni,“ sagði Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöðinni á Selfoss.
Allt starf hjá handknattleiks- og knattspyrnudeildum Selfoss var fellt niður um helgina sem vildu sýna samfélagslega ábyrgð á meðan rakningarteymið næði utan um málin á Selfossi.
Samkvæmt nýjustu tölum á covid.is eru 75 manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19 og 221 í sóttkví, en þær tölur eru síðan fyrir helgi.