64 umsóknir um sex íbúðarhúsalóðir á Borg

Íbúum á Borg í Grímsnesi mun fjölga mikið á næstunni þar sem unnið er að stækkun íbúðahverfisins vestan Borgar.

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í gær úthlutaði sveitarstjórn lóðum í fyrsta áfanga nýrrar byggðar vestan við Borg.

Um er að ræða sex lóðir og bárust samtals 64 umsóknir um þær, en á fundinum í gær voru væntanlegir lóðarhafar dregnir út að viðstöddum lögbókanda frá sýslumannsembættinu.

„Við bindum vonir við að lóðarhafar hefji framkvæmdir á sínum lóðum með haustinu. Það eru líkur á því að nýja byggðin verði mikil lyftistöng fyrir þéttbýlið á Borg og sveitarfélagið allt,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Gatnagerð á svæðinu er að mestu yfirstaðin og lokafrágangur við götur og lýsingu í fullum gangi þessa dagana.

Fyrri greinSex nemendur frá TÁ léku með ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Næsta greinFéll af þaki í Rangárþingi