Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun 67 milljóna króna framlag til verkefna í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.
Alls hefur 867,7 milljónum króna verið veitt til verkefna á svæðinu.
Verða 27 milljónir króna veittar til greiðslu kostnaðar við átaksverkefni á gossvæðinu þar sem einstaklingar voru ráðnir af atvinnuleysisskrá til ýmissa verkefna og 12 milljónum króna verður varið til að mæta kostnaði við viðgerðir á varnargörðum í Markarfljóti, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Þá var samþykkt að veita 17 milljónum króna til þess að endurbæta bæjarhlöð og heimreiðar, en í kjölfar öskufalls var ráðist í að skafa ösku af öllum bæjarhlöðum á þeim hluta svæðisins sem verst varð úti en með því fór efsta lagið víða af hlöðum.
Jafnframt verður 11 milljónum veitt til Veðurstofunnar vegna sérfræðivinnu sem innt var af hendi í gosinu auk þess sem ríkisstjórnin hefur farið þess á leit að Veðurstofan vinni nú mat á hættu á eðjuflóðum, aurskriðum og framburði gosefna niður á láglendi.
Fyrr á árinu samþykkt ríkisstjórnin 800,7 milljóna króna framlag vegna ýmissa þátta og viðbragða í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.
Með þessari samþykkt á 67 milljóna kr. framlagi til viðbótar eru heildarframlög úr ríkissjóði á árinu 2010 orðin 867,7 milljónir kr., segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Þá segir að heildarkostnaðarmat vegna tjóns af völdum eldgosa í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi liggi ekki endanlega fyrir þar og ennþá sé að koma fram kostnaður vegna neyðarviðbragða og aðgerða og ýmissa afleiðinga eldgosanna.