Samningur milli Hveragerðisbæjar og nemenda í 7. bekk Grunnskólans í Hveragerði var undirritaður nýverið.
Með samningnum taka nemendurnir að sér að hreinsa rusl í Hveragerðisbæ. Rusl er hreinsað mánaðarlega á skólalóð, í skógræktinni og við allar aðalgötur bæjarins auk þess sem hreinsað er úr trjábeðum og á öllum aðliggjandi grænum svæðum bæjarins.
Í tengslum við umhverfisverkefni skólans, Grænfánann, sjá nemendur 7. bekkjar ennfremur um að losa endurvinnsluílát í sérgreinastofum og í þjónusturýmum í aðalbyggingu í til þess gerða gáma á gámasvæði skólans.
Sambærilegur samningur hefur verið gerður við nemendur 7. bekkjar í Hveragerði til fjölda ára. Fyrir vinnu nemenda greiðir Hveragerðisbær fasta upphæð mánaðarlega sem rennur óskipt í ferðasjóð nemendanna en hefð hefur skapast fyrir því að 7. bekkur í Hveragerði heimsæki Úlfljótsvatn og eigi þar góða og skemmtilega daga.
Aðspurð segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, að samningurinn sé bæjarfélaginu afar mikilvægur: „Með vinnu sinni leggja nemendurnir sitt af mörkum til þess að Hveragerðisbær sé ávallt hreinn og snyrtilegur og bæjarbúum til sóma. Ungir Hvergerðingar læra að sé rusli hent þá þarf alltaf einhver að sækja það síðar. Það er mikilvægur lærdómur.“