Fyrirtækið Kambar sagði upp sjötíu manns í gær. Fyrirtækið stefnir í gjaldþrot og engin laun voru greidd út um mánaðamótin eftir því sem fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins.
Kambar starfa í Kópavogi, Þorlákshöfn og á Hellu. Fyrirtækið er í eigu Karls Wernerssonar og framleiddi glugga, gler, hurðir og svalahandrið og hefur verið eini framleiðandi landsins á hertu gleri.
Starfsmaður hjá Kömbum segir í samtali við RÚV þetta munu koma illa við samfélagið á Hellu þar sem margir hafa starfað hjá fyrirtækinu.
Glerverksmiðjan Samverk á Hellu, Trésmiðjan Börkur Akureyri, Gluggasmiðjan Selfossi og Sveinatunga sameinuðust undir merkinu Kambar fyrir þremur árum. Velta Kamba var þá áætluð 2,5 milljarðar króna.