Nú eru 74 nemendur og 8 kennarar í 7.-10. bekk í Grunnskólanum í Hveragerði komnir í sóttkví eftir að kennari við skólann greindist með COVID-19 í gær.
RÚV greindi frá þessu í morgun og hafði eftir Sævari Þór Helgasyni, skólastjóra, að ekki sé vitað til þess að neinn þeirra sem eru í sóttkví hafi fundið fyrir einkennum.
„Auðvitað er leiðinlegt að vera nýbúin að taka niður grímurnar og skólastarfið komið í eðlilegt horf, að lenda þá í þessu,“ segir Sævar.
Í dag eru tíu manns í einangrun á Suðurlandi og 109 í sóttkví, en smitum hefur fjölgað um sjö á Suðurlandi á tveimur dögum. Fjórir af tíu eru í Hveragerði og þar eru 83 í sóttkví, að því er fram kemur í tölum frá HSU.
Þá eru 228 manns í sóttkví á Suðurlandi eftir skimun á landamærunum.
Í gær greindust 11 manns með kórónuveirusmit innan lands og voru fjórir utan sóttkvíar, að því er fram kemur á covid.is.