Í tilefni af 75 ára afmæli RARIK verður efnt til málþinga í september víða um land. Málþingið á Selfossi verður í dag á Hótel Selfossi.
Yfirskrift málþinganna er: Rafmagnið í lífi okkar – hreyfiafl landsbyggðar til framtíðar. Á málþingunum verður fjallað um orkuskipti og önnur spennandi verkefni sem framundan eru í orkumálum og hlutverk RARIK sem framsækið tæknifyrirtæki í þeim breytingum.
Málþingið á Selfossi í dag er öllum opið og aðgangur ókeypis. Húsið opnar klukkan 16:30 og verður boðið upp á léttar veitingar ásamt lifandi tónlist um leið og fulltrúar RARIK munu spjalla við gesti um helstu verkefni sem unnið hefur verið að á hverju svæði og svara spurningum.
Að því loknu klukkan 17:00 mun Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, hefja málþingið en frummælendur eru Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIK, Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóri kerfisstýringar RARIK, Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, þróunarstjóri nýsköpunar og greininga hjá RARIK og Hildur Harðardóttir, formaður Kvenna í orkumálum og verkefnisstjóri á sviði samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun. Ráðstefnustjóri er rithöfundurinn Bergur Ebbi.
Á milli dagskráratriða verða birt stutt myndbrot úr kynningarmyndbandi sem unnið hefur verið í tilefni afmælisins.