„Fólk hefur bæði líkamlegan og andlegan ávinning af því að stunda jóga. Flestir byrja í jóga sem ákveðnu formi af líkamsrækt, sem er í sjálfu sér mjög gott.
Þú nærð að teygja líkamann út og suður og í raun hreyfirðu alla vöðva. Þú kemur við alla vöðva líkamans ef þú tekur einn jógatíma, hvort sem þú ert að taka mjög harðan eða ljúfan tíma, þá ertu að fara í gegnum allan líkamann, frá a til ö,“ segir Rósa Traustadóttir sem hefur starfað sem jógakennari á Selfossi í tæp tíu ár.
Síðastliðið haust fór Rósa til Flórída í Bandaríkjunum og lærði Yoga Nidra á Amrit Yoga Institute hjá meistara Amrit Desai og dóttur hans, Kamini Desai. „Í Yoga Nidra ertu leiddur inn í mjög djúpa slökun. Það má segja að þar sem venjuleg slökun endar, þar byrjar Yoga Nidra, “ segir Rósa.
Yoga nidra er ákveðið form af hugleiðslu en Rósa segir að margir reyni hugleiðslu eða ætli sér það en fæstir nái almennilegum tökum á henni. „Í Yoga Nidra nærðu þessu nánast í fyrsta tímanum. Þetta er ákveðið kerfi þar sem farið er yfir líkamann á ákveðinn máta og þú í rauninni bara fylgir. Þá detturðu inn í undirvitundina og það er náttúrulega þar sem rótin að svo mörgu er,“ segir Rósa sem bætir því við að fólk eigi oft erfitt með að fóta sig vegna upphleðslu á streitu. Að sögn Rósu má rekja 80% allra sjúkdóma beint til streitu.
„Í undirvitundinni ertu í rauninni að takast á við svo margt sem þú ert kannski búinn að byrgja inn, festa einhvers staðar og heldur að sé fallið í gleymskunar dá en er kannski að hafa áhrif á þig í daglegu lífi, sem getur svo komið fram sem vanlíðan og óþægindi,“ segir Rósa.
„Fyrir utan að draga úr streitu getur Yoga Nidra bætt svefn, lækkað blóðþrýsting, örvað ónæmiskerfið og jafnvel dregið úr ótímabærri öldrun,“ segir Rósa sem segir sjálf að hún hafi aldrei verið í betra formi en akkúrat núna.
Hægt er að fara í Yoga Nidra alla fimmtudaga í jógastöðinni í sumar.