Hlutafélagið Fjallasaum ehf. sem starfrækt var um árabil undir Eyjafjöllum hefur nú fengið nýtt hlutverk. Forsvarsmenn þess standa fyrir gerð Njálurefils sem segja mun Njálssögu á myndrænan hátt.
Fjallasaum ehf. var í eigu einstaklinga, Rangárþings eystra og Kaupfélags Rangæinga, en nú hafa Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina Bengtsson tekið við því.
Félagið mun nú halda utan um allan rekstur sem við kemur verkefninu um Njálureflinn. Þar er ætlunin að sauma 60 til 80 metra langan refil sem segir Njálssögu á myndrænan hátt. Unnið verður að verkefninu í Sögusetrinu á Hvolsvelli og mun taka nokkur ár að fullgera refilinn.
Gunnhildur og Christina hafa fengið til liðs við sig teiknarann Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og þessa dagana er unnið að hugmyndavinnu og upplýsingaöflun.
Áætlað er að fyrsta nálastungan verði tekin þann 2. febrúar á næsta ári. Margir aðilar koma að þessu verkefni en það hefur fengið ýmsa styrki m.a. rúma 1,3 milljón króna frá Vaxtasamningi Suðurlands og 600.000 kr. styrk frá Menningarráði Suðurlands.