Fjaðrárgljúfur er í dag vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Skaftárhreppi. Fjaðrárgljúfur er svæði á náttúruminjaskrá og hefur landvörður á vegum Umhverfisstofnunar sinnt þar landvörslu frá því í lok maí 2017 fram til áramóta.
Skaftárhreppur óskaði eftir því á síðastliðnu ári að landvarsla yrði aukin á svæðinu vegna ágangs ferðamanna þar sem svæðið lætur mikið á sjá en einnig til að auka öryggi gesta, sérstaklega yfir vetrartímann. Í frétt frá Umhverfisstofnun segir að þörfin á landvörslu í Fjaðrárgljúfri sem og öðrum náttúruverndarsvæðum um allt landið sé mjög mikil á þessum árstíma.
Dr. Rögnvaldur Ólafsson setti upp teljara við Fjaðrárgljúfur árið 2015. Allt árið 2017 komu samkvæmt teljaranum 282.423 gestir í Fjaðrárgljúfur, það er 82% fjölgun frá árinu 2016 þegar 154.948 gestir komu í gljúfrið samkvæmt upplýsingum frá dr. Rögnvaldi . 5.465 gestir komu í desember sl. í gljúfrið. Í sama mánuði árið 2016 komu 3.942 gestir, sem nemur 39% aukningu á milli ára.
Vegagerðin hefur nú aukið þjónustustig á veginum að Fjaðrárgljúfri svo gera má ráð fyrir enn meiri umferð um svæðið í vetur af þeim sökum.