Fyrr í desember var fagnað formlegri opnun nýrrar göngudeildar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Nýja göngudeildin mun fyrst um sinn leggja áherslu á þjónustu við krabbameinssjúklinga og nýrnasjúklinga.
Tvær nýrnavélar eru til staðar á deildinni og er aðstaða mjög góð fyrir sjúklinga sem þurfa á þeim að halda og einnig fyrir sjúklinga sem þurfa á lyfjagjöf að halda.
Deildin er að miklu leyti orðin til vegna frumkvæðis sjúklinganna sjálfra, aðstandanda þeirra heilbrigðisstarfsmanna og fyrrverandi forstjóra HSu. Einnig fékkst nauðsynlegur stuðningur frá heilbrigðisyfirvöldum.
Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSu tók á móti gestum og kom fram í ávarpi hennar að til þess að svona verkefni verði að veruleika, þarf margar fúsar hendur og að þessu sinni sem endranær naut HSu stuðnings fjölmargra einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka.
Björn Magnússon yfirlæknir á lyflækningadeild og Katrín Ósk Þorgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur á nýju göngudeildinni tóku einnig til máls og fóru yfir aðdragandann að stofunun deildarinnar og hversu mikilvæg svona deild er sjúklingunum sem þurfa á meðferð. Katrín útskýrði vel ferlið sem nýrnasjúklingar ganga í gegnum og mikilvægi og virkni nýrnavéla. Einnig tók til máls Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í Velferðaráðuneytinu og kom á framfæri árnaðaróskum og hrósaði dugnaði sunnlendinga.
Að lokum fór Esther Óskarsdóttir skrifstofustjóri HSU yfir það hverjir gáfu til deildarinnar og afhenti þakkarbréf til gefenda en heildarverðmæti gjafa til göngudeildarinnar er 8.259.229 kr.