Sunnulækjarskóli á Selfossi verður símalaus skóli frá og með skólasetningu á morgun. Þessi ákvörðun fékk afgerandi stuðning foreldra í rafrænni kosningu síðasta vor.
Í bréfi sem Hermann Örn Kristjánsson, skólastjóri, sendi foreldrum og forráðamönnum nemenda í morgun kemur fram að yfir 500 foreldrar svöruðu könnuninni og var um 89% fylgjandi símalausu skólaumhverfi.
„Ástæða þessarar ákvörðunar er að stóru leyti byggð á rannsóknum um líðan ungmenna, einbeitingu og námsframvindu í skólanum þar sem samfélagsmiðlar og símar eru aðgengilegir. Einnig hafa foreldrar sem vilja stuðla að ábyrgri símanotkun og leggja sig fram um eftirlit og tímastjórnun bent á að þeir geti ekki sinnt því hlutverki á skólatíma barna sinna,“ segir Hermann.