Úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða var kynnt í Vík í Mýrdal síðastliðinn föstudag en alls var úthlutað 550 milljónum króna til 28 verkefna. Af þeim fara rúmar 98 milljónir króna til fjögurra verkefna á Suðurlandi.
Hæsti styrkurinn á Suðurlandi, og sá þriðji hæsti á landsvísu, er til útsýnispalls sem byggja á í hlíðum Reynisfjalls í Mýrdal. Verkefnið hlaut 72 milljón króna styrk.
Þá er 12,3 milljónum króna veitt í umbætur í Ölfusdölum, Reykjadal og nærliggjandi svæða og 10,4 milljónum í uppbyggingu Hrunalaugar. Einnig fara 3,3 milljónir króna í stikun og merkingu gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls.
Alls fékk sjóðurinn 101 umsókn um styrki þar sem samtals var óskað eftir rúmlega 2 milljörðum króna.
Fjölbreytt verkefni um land allt
Verkefnin sem nú hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli.
Hæsti styrkurinn að þessu sinni eru 158 milljónir króna í verkefnið „Baugur Bjólfs“ á Seyðisfirði. Sex aðrir styrkir voru hærri en 20 milljónir króna.
„Frá árinu 2012 til 2022 hafa alls 849 verkefni hlotið styrk úr Framkvæmdasjóðnum og bætast því nú 28 verkefni við í þann hóp. Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, meðal annars í kynningu sinni í Vík á föstudaginn.