Fyrsti ársfundur sameinaðar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands haldinn hjá HSU á Selfossi síðastliðinn fimmtudag.
Í máli Herdísar Gunnarsdóttur, forstjóra HSU, á fundinum kom fram að við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands varð til sjötta stærsta A-hluta stofnun á fjárlögum ríkisins með um tæplega 4,9 milljarða króna í ársveltu á árinu 2016. Ríflega helmingur rekstarfjár fer til heilsugæslu og sjúkraflutninga, um þriðjungur til sjúkrarýma og einn sjötti til reksturs hjúkrunarrýma.
Á öðru ári eftir sameininguna, sem var í árslok 2014, var HSU enn að glíma við rekstrar- og skuldavanda eldri stofnana. Á árinu 2016 á HSU þurfi að fara í endurskipulagningu í rekstrinum ásamt því að segja upp 20 störfum en samhliða var geysimikil aukning verkefna. Fjárframlög ársins voru að núvirði í byrjun árs 2016 um 8% undir því sem eldri stofnanir, sem nú tilheyra HSU, fengu samanlagt í fjárframlög fyrir hrun árið 2008. Á því sama tímabili hafa verkefnin hins vegar margfaldast.
Aldrei fyrr hefur HSU þurft að sinna jafn mörgum verkefnum og árið 2016, og enn vex eftirspurnin eftir þjónustu. Á ársgrundvelli fjölgaði komum á bráðamóttöku um 16%, sjúkraflutningum um 11%, legudögum í sjúkrarýmum fjölgaði og biðtími eftir hjúkrunarrýmum og eftirspurn eftir heimahjúkrun óx.
Herdís lagði áherslu á að áfram munu vera blikur á lofti í rekstri HSU ef krafa verður um óbreytta grunnþjónustu sem ekki er fjármögnuð í samræmi við vaxandi álag. Að óbreyttu þarf að grípa til sársaukafullra aðgerða í rekstri og þjónustu í byrjun árs 2018.
Björn Steinar Pálmason, framkvæmdastjóri fjármála, fór yfir ársreikning HSU og þann góða árangur sem náðst hefur að koma stofnunni úr afar slæmri rekstrarlegri stöðu í jafnvægi, en ársreikningur síðasta árs sýndi í fyrsta sinn jákvæða stöðu og að baki þeim ávinningi liggur þrotlaus vinna stjórnar HSU. Í máli Björns kom fram að fjármögnun ríkisins til tækjakaupa er fjarri því að standa undir nauðsynlegri endurnýjun tækja til grunn heilbrigðiþjónustu.
Auk Herdísar og Björns tóku til máls Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Birgir Jakobsson, landlæknir. Fundurinn var öllum opin og þátttaka góð, en fundinn sóttu alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og starfsfólk.