„Að reisa múra er andstætt því samfélagi sem við viljum byggja upp“

Bæjarráð Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Árborgar samþykktu bókanir á fundum sínum í gær þar sem hugmyndum samgönguráðherra um veggjald á stofnvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er mótmælt harðlega.

„Umræða nú um mögulegt veggjald […] kemur á óvart enda var slík umræða tekin árið 2010/2011 og hlaut hún þá lítinn hljómgrunn. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar barðist þá gegn slíkum áformum enda talið að hér væri skýrt dæmi um landsbyggðartoll að ræða,“ segir meðal annars í bókun Hvergerðinga.

„Verði veggjald að veruleika er vegið að afkomu fjölda einstaklinga en auk þess snerta áformin með beinum hætti fjölda fyrirtækja sem daglega sjá til þess að nauðsynjar berist inná höfuðborgarsvæðið og veita þar mikilvæga þjónustu. Að reisa múra með þessum hætti umhverfis stærstu byggðarlög landsins er andstætt því samfélagi sem við viljum byggja upp þar sem ríkja ættu hindrunarlausar og góðar samgöngur milli byggðarlaga,“ segir ennfremur í bókuninni.

Í bókun bæjarráðs Árborgar er bent á að ríkissjóður hefur umtalsverðar tekjur af umferð og bílaeign landsmanna í formi bifreiða- og eldsneytisgjalda . „Skattlagning á einstakar leiðir gengur gegn jafnræði íbúa,“ segir í bókun bæjarráðs Árborgar.

Fyrri greinÞórsarar gáfu eftir í lokin
Næsta greinBorgarverk bauð lægst í Suðurhólana