Í dag útskrifuðust 102 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar af 53 stúdentar. Dúx skólans er Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, frá Þorlákshöfn.
Sjö luku námi af húsasmíðabraut og níu nemendur luku grunnnámi ferða- og matvælagreina. Af hópnum öllum útskrifuðust níu nemendur af tveimur brautum.
Aðalbjörg Ýr fékk viðurkenningu fyrir afburða námsárangur og frammistöðu í námi á stúdentsprófi. Meðaleinkunn hennar var 9,59. Hún fékk verðlaun fyrir námsárangur í spænsku og dönsku, stærðfræði, náttúruvísindagreinum og raungreinum. Einnig fékk Aðalbjörg viðurkenningu fyrir frábæran árangur og eljusemi í fimleikaakademíu FSu en hún æfir fimleika hjá fimleikadeild Umf. Selfoss.
Í samtali við sunnlenska.is sagði dúxinn að í sumar tæki við vinna í humri en hún ætlar svo að halda áfram að vinna í haust til þess að safna fyrir Asíu og Ástralíureisunni sem hún stefnir á í janúar með vinkonum sínum.
„Ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að gera varðandi framhaldsnám, það á eftir að koma í ljós. En áhuginn liggur á því sviði raungreinanna. Heilbrigðisvísindi og allskyns raungreinar heilla mig mest,“ sagði Aðalbjörg Ýr.
Fimmtán aðrir nemendur voru verðlaunaðir fyrir góðan árangur, meðal annars þær Barbara Meyer sem fékk viðurkenningu fyrir félagsfræði, sögu og heimspeki og Iðunn Rúnarsdóttir fyrir ensku og spænsku. Barbara var semi dúx skólans með einkunnina 9,37 og Iðunn kom þar á eftir með einkunnina 9,35.