Í sumar hefur verið unni að því að bæta aðgengi að flugvélarflakinu fræga á Sólheimasandi en fjöldi ferðamanna leggur leið sína að flakinu á hverjum degi.
Kötlusetrið í Vík vinnur að verkefninu í samstarfi við landeigendur, Ferðamálastofu, Vegagerðina, Mýrdalshrepp og Veraldarvini.
Vélin á Sólheimasandi er Douglas DC-35 Super Dakota sem nauðlenti þar árið 1973. Flakið hefur töluvert látið á sjá í gegnum árin en á Facebooksíðu Kötluseturs segir að nauðlendingarstaðurinn sé orðinn heimsfrægur þrátt fyrir enga auglýsingu af hálfu heimanna. Á hverjum degi spyrja 10-15 einstaklingar um staðsetningu flaksins í upplýsingamiðstöðinni í Kötlusetri.
Verkefnið sem unnið hefur verið að í sumar snýr að því að bæta aðgengi með því að setja ristarhlið á girðinguna á sandinum, merkja slóða niður að flugvélarflakinu, setja upp merkingar um hvar á að fara og hvar á ekki að fara ásamt því að afmarka bílastæði og setja upp fræðsluskilti.
Búið er að setja ristarhlið á girðinguna svo að ekki þarf lengur að fara í gegnum hlið ásamt því að stika slóðann niður að flugvél. Næstu skref eru að afmarka bílastæði og setja upp merkingar og fræðsluskilti.
Ástæðan fyrir því að farið var af stað í þetta verkefni er sú að flugvélarflakið er að verða einn af eftirsóttustu áfangastöðum í Mýrdalshreppi þrátt fyrir að heimamenn hafi ekki auglýst staðinn sem sérstakan áfangastað, töluvert var farið að bera á slæmri umgengni og utanvegaakstri ásamt því að bílar voru að festast um allan sand og hlið voru skilin eftir opin.
Stefnt er að því að ljúka verkinu í haust.