„Þetta hefur gengið vel. Aðstæður í Landeyjahöfn eru nokkuð góðar núna. Þar er ágætt dýpi og það er verið að dýpka.“
Þetta segir Ívar Gunnlaugsson, skipstjóri á Herjólfi í Morgunblaðinu í dag, en siglingar í höfnina hafa gengið vel alla þessa viku. Dýpkunarskipin Skandia og Perla hafa bæði verið að dýpka höfnina síðustu daga.
Herjólfur byrjaði að sigla í Landeyjahöfn á ný á laugardaginn. Dagana áður hafði Skandia unnið að dýpkun hafnarinnar. Perlan var til aðstoðar í nokkra daga, en hætti dýpkun á miðvikudaginn.
Þegar Ívar er spurður hvort hann sé bjartsýnn á að hægt verði að nota höfnina í vetur segir hann að það fari eftir veðri. Erfitt sé að sigla inn í höfnina í vondum veðrum þegar ölduhæð sé mikil.