Aðventuhátíð fyrir fjölskylduna

Fjölskyldan verður í fyrirrúmi á Úlfljótsvatni á aðventunni, en þar gefst almenningi nú kostur á að taka þátt í aðventuhátíð Útilífsmiðstöðvar skáta, þriðja árið í röð.

„Á þessum árstíma er tilvalið að eiga gæðastund með fjölskyldunni, svona áður en erill jólanna verður allsráðandi,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns.

„Við höfum því sett saman rólega og skemmtilega dagskrá þar sem fólk getur komið og bakað piparkökur saman, drukkið kakó við varðeldinn, föndrað smá jólaskraut, farið í leiki og reynt fyrir sér í bogfimi. Svo eigum við von á góðum gesti sem um þetta leiti verður farinn að undirbúa ferð til byggða.“

Rúsínan í pylsuendanum er svo fjórtán rétta jólahlaðborð fyrir alla aldurshópa. „Þeim yngstu finnst sumum meira spennandi að fá góðar kjötbollur eða kokteilpylsur heldur en purusteik eða villibráðarkæfu, og auðvitað viljum við að þau njóti máltíðarinnar eins og þeir sem eldri eru,“ segir Guðmundur. „En við erum auðvitað líka með lambalæri, jólaskinku, hangikjöt og allt sem tilheyrir.“

Í ár verða fjórar dagsetningar í boði, 28. og 29. nóvember og 5. og 6. desember. Nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram á www.ulfljotsvatn.is, en þar er líka að finna nánari upplýsingar um matseðil, verð og dagskrá.

Skátar hafa rekið útilífsmiðstöð sína við Úlfljótsvatn síðan 1941 en á síðustu áratugum hefur starfsemin þar opnast æ meira fyrir almenning. „Við rekum hér eitt stærsta tjaldsvæði landsins, sem er opið fyrir almenning, auk þess að taka á móti fyrirtækjahópum í hópefli, skólabúðahópum og margt fleira. Svo eru sumarbúðirnar okkar auðvitað opnar fyrir alla hressa krakka. Hér eru allir velkomnir,“ segir Guðmundur að lokum.

Fyrri greinÁform um hótelbyggingu óbreytt og fjármögnun lokið
Næsta grein„Fyrri hálfleikur var algjör skandall“