Vinir alþýðunnar buðu til aðventustundar í hádeginu í dag, mánudaginn 12. desember, í Alþýðuhúsinu á Eyrarbakka í Félagsheimilinu Stað.
Veislustjóri var Siggeir Ingólfsson, Staðarhaldari.
Á borðum voru afurðir Hjallastefnurnar sem Vinir alþýðunnar hafa verkað á þjóðlegan máta úr hráefni sem veitt hefur verið af Eyrarbakkabátnum Mána ÁR. Þetta var; kæst skata – nætursaltaður þorskur og siginn fiskur sem verkaður hefur verið í útsýnispallinum við Alþýðuhúsið á síðustu vikum. Þúsundir erlendra ferðamanna hafa myndað verkunina á fiskinum og þannig vottað þessa þjóðlegu verkunaraðferð Hjallastefnunnar.
Sérstakur gestur aðventustundarinnar var Ásmundur Friðriksson, alþingismaður í Suðurkjördæmi og Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins, flutti blandaða þjóðlega hugvekju í menningarlegu samspili Vestfirðinga og Sunnlendinga fyrr og nú.
Þá var í lokin Bókalottó þar sem dregnar voru út bækur frá Vestfirska forlaginu.