Sá sem hraðast ók framhjá hraðamyndavélum lögreglunnar í Ölfusi í fyrra var á 199 km/klst hraða.
Leyfilegur hámarkshraði á veginum er 90 km/klst og var ökumaðurinn, tvítugur karlmaður, því á meira en tvöföldum hámarkshraða.
Viðurlög við broti sem þessu eru ákvörðuð af dómara í héraðsdómi. Samkvæmt sektarreikni Umferðarstofu er sektin fyrir að aka á 161-170 km/klst 150.000 krónur, þriggja mánaða svipting og þrír punktar.
Alls voru skráð 22.322 hraðakstursbrot með stafrænum hraðamyndavélum á árinu 2010 og er það svipaður fjöldi og árið á undan. Flest brotin áttu sér stað á Suðurlandvegi en þar eru tvær hraðamyndavélar milli Hveragerðis og Selfoss.