Í gærkvöldi var haldið vel heppnað styrktarkvöld í Hótel Selfossi fyrir Ágústu Örnu sem lamaðist í slysi á Selfossi fyrir stuttu.
Alls mættu um 500 manns á viðburðinn þar sem Páll Óskar, Ari Eldjárn, Herbert Guðmundsson, Ágústa Eva og Karitas Harpa ásamt Á móti sól, Stuðlabandið, Kiriyama family, Stebbi Jak og Andri með sín Föstudagslög og Hreimur & Made in sveitin komu fram.
Á sama tíma var uppboð, sem hafði verið í gangi síðustu vikur, klárað þar sem keppnistreyjur, málverk, ævintýraferðir og hótel gistingar voru í boði.
Allir þeir sem komu nálægt þessu kvöldi og uppboðinu gáfu sína vinnu og fór hver einasta króna sem fólk greiddi, hvort sem það var fyrir miða, veitingum, uppboðsmunum eða öðru, óskipt til Ágústu Örnu sem vinnur nú hörðum höndum að endurhæfingu eftir slysið. Niðurstaðan var sú að alls söfnuðust vel á fimmtu milljón króna.
Skipuleggjendur vildu koma á framfæri miklum þökkum til þeirra sem mættu á styrktarkvöldið, tóku þátt í söfnuninni og uppboðinu og til þess stóra hóps sem aðstoðaði við þennan stóra viðburð. „Þetta hefði ekki verið mögulegt án hjálp margra aðila og þetta hefði ekki verið eins árangursríkt og raun bar vitni án þeirra sem mættu á styrktarkvöldið og tóku þátt í uppboðinu,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum á Facebook-síðu söfnunarinnar, Fyrir Ágústu.
Fyrir þá sem komust ekki á styrktarkvöldið má finna upptöku frá því á fyrrnefndri síðu og þá má einnig benda á að söfnunin er enn í gangi. Það er hægt að leggja inn á styrktarreikning Ágústu Örnu: Reikningsnúmerið er 0325-13-110203 og er kennitala hennar 270486-3209.