Lögreglan á Suðurlandi kærði 38 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Sá sem hraðast ók var á 150 km/klst á Suðurlandsvegi í Flóa. Sektin þar var 210 þúsund krónur, auk sviptingar ökuréttar í einn mánuð.
Af þessum 38 voru 24 á ferðinni í Árnes- og Rangárvallasýslum. Sjö voru stöðvaðir af lögreglumönnum sem voru við eftirlit með stórum bílum víðsvegar um Suður- og Suðvesturlandið, svona meðan beðið var eftir næsta bíl til að skoða leyfi og annað hjá.
Í dagbók lögreglunnar segir að allir þeir sem sektaðir voru sitji eftir með óþarfa kostnað og það að hafa valdið samferðamönnum sínum og sjálfum sér óþarfa hættu í umferðinni.
Í síðustu viku sektaði lögreglan einn ökumann þar sem barn í bílnum var án öryggisbúnaðar. Sá var á ferðinni við Landvegamót og var barnavernd í sveitarfélagi ökumannsins gert viðvart um málið.