Maður liggur alvarlega slasaður á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir gaseitrun og dottið við vinnu sína í vélasal Hellisheiðarvirkjun um klukkan hálffjögur í nótt.
Þrír starfsmenn Orkuveitunnar unnu við viðgerðir í vélasalnum í nótt þegar einn þeirra varð var við óeðlilega mikinn styrk af jarðhitagasi, brennisteinsvetni og koltvísýring í rýminu. Tveir mannanna misstu meðvitund en sá þriðji komst klakklaust út.
Gerði hann Neyðarlínunni viðvart og kom félögum sínum til hjálpar. Slökkvilið og sjúkrabílar frá Selfossi, Hveragerði og Reykjavík voru sendir á vettvang og voru mennirnir fluttir á slysadeild. Annar þeirra liggur á gjörgæsludeild alvarlega slasaður en hinn minna. Þriðji maðurinn slapp ómeiddur.
Lögreglan og Vinnueftirlitið voru kölluð til og rannsaka tildrög slyssins.