Lögreglan á Hvolsvelli tók þrjú ökutæki úr umferð í vikunni þar sem tryggingar þeirra voru ekki í gildi.
Þar af voru tvö fjórhjól sem einnig voru án skráningarmerkja og var ekið um götur á Hvolsvelli þegar lögregla veitti þeim athygli.
Akstur torfærutækja er óheimill á almennum vegi og gilda strangar reglur um akstur þessara ökutækja.
Í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli kemur fram að lögreglumenn hafi veitt því eftirtekt að fjöldi ungra ökumanna sem stöðvaður er vegna umferðarlagabrota er að aukast. Vilja lögreglumenn því beina því til ungra ökumanna sem og allra annarra ökumanna að fara eftir umferðarlögunum, því með því stuðla allir að bættu umferðaröryggi fyrir alla þá sem í umferðinni eru.