Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir innbrot í gáma á gámasvæðinu í Reykholti þar sem maðurinn stal fjórum plastpokum með tómum drykkjarumbúðum.
Maðurinn braust inn í þrjá gáma á gámasvæðinu í Reykholti með því að klippa í sundur hengilása sem læstu gámunum. Hann rótaði í gámunum og stal þaðan fjórum plastpokum með tómum drykkjarumbúðum. Innbrotin áttu sér stað á ellefu daga tímabili í nóvember í fyrra.
Ákærði viðurkenndi brot sín skýlaust en hann hefur fimm sinnum áður komist í kast við lögin, fyrir brot á áfengislögum, ávana- og fíkniefnalögum og umferðalögum.
Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, taldi hæfilega refsins fangelsi í einn mánuð en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.