Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði ökumann á Suðurlandsvegi fyrir austan Vík í Mýrdal laust fyrir klukkan 19:00 í kvöld. Bifreiðin sem ökumaðurinn ók mældist á 161 km/klst hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Ásamt ökumanni voru tveir farþegar í bifreiðinni. Ökumaðurinn á yfir höfði sér háa fjársekt og sviptingu ökuréttar vegna hraðakstursins.
„Um leið og umferðin um vegi embættisins hefur minnkað er það orðið æ algengara að lögreglumenn sjái mjög háar hraðatölur við umferðareftirlit þeirra. Slökum á og njótum þess frekar að ferðast á löglegum hraða um fallega landið okkar,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.