Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að bolludagurinn er í dag. Þó að bolluvandahefðin sé kannski ekki eins vinsæl og áður þá virðast vinsældir rjómabollanna ekki dvína þrátt fyrir keto æði og ýmiskonar annað mataræði.
„Við áætlum að selja um 12 þúsund bollur um helgina í öllum bakaríunum okkar,“ segir Almar Þór Þorgeirsson hjá Almari bakari en Almar bakari er í Hveragerði, á Selfossi og á Hellu.
„Þessi klassíska með rjóma og sultu er sívinsæl en svo er bláberjabollan og karamellubollan að seljast mjög vel í ár en þær síðarnefndu eru nýjungar í bakaríinu,“ segir Almar en alls býður Almar bakari upp á tólf tegundir af bollum í ár.
Þegar sunnlenska.is leit við í bakaríinu í dag var stöðug traffík í bollurnar og var það mál manna að karamellubollan væri bragðbesta bollan.