Fimmtánda október 2019 ákvað Valgerður Jónsdóttir á Selfossi að taka þátt í áskorun sem fólst í því að hreyfa sig í 30 mínútur á dag í hundrað daga.
Eftir að hundrað daga markmiðinu var náð ákvað Valgerður að halda áfram og þann 15. október næstkomandi er komið heilt ár síðan hún hóf áskorunina.
„Kær vinkona mín, Þóra, manaði mig í raun til að taka þessa áskorun samferða henni. Þóra setti fram frásögn á Instagram þar sem hún sagði frá áskoruninni og hvatti aðra til að vera með. Mér fannst þetta svo magnað hjá henni og stór ákvörðun. Eftir smá spjall við hana þá var hún algerlega búin að selja mér hugmyndina og manaði mig um leið í að koma með sér í þetta ferðalag,“ segir Valgerður í samtali við sunnlenska.is.
„Áskorunin er kölluð 30 mínútur í 100 daga. Í grunninn snýst hún um að skuldbinda sig til að hreyfa sig í 30 mínútur á dag í 100 daga, en að mínu mati liggur þetta aðeins dýpra. Aðalatriðið er að taka frá tíma, meðvitað, fyrir sjálfan sig og nota þann tíma í hreyfingu,“ segir Valgerður sem er íþróttafræðingur að mennt.
Sjálfsmyndin oft erfiðari en æfingin sjálf
Valgerður segir að það besta við þessa áskorun sé að það er ekkert flókið við hana. „Það er engin krafa um að eiga fullt af græjum og dóti til að geta tekið þátt. Aðalatriðið er þú, og að þú veljir að gera þetta fyrir þig. Einfalt er best, og rólegur göngutúr getur oft gert mun meira fyrir mann en brjáluð þrekæfing þar sem maður keyrir sig algerlega út. Hluti af áskoruninni var að taka mynd á hverjum degi og setja hana á Instagram. Ég get alveg sagt það að oft var þessi blessaða sjálfsmynd erfiðari en æfingin sjálf, oft setti ég bara inn mynd af skónum mínum.“
Mikill styrkur að vera tvær saman
Valgerður segir að heilt yfir hafi áskorunin gengið vel. „Ég ætla ekki að reyna að mála þetta ár upp sem eitt allsherjar bleikt ský, því það hafa komið dagar, fleiri en einn og fleiri en tíu, sem ég hef alls ekki haft löngun til að hreyfa mig.“
„Það var svo magnað til að byrja með og auðvitað svo áfram, hvað maður fann mikinn styrk í því að við vorum tvær að gera þetta. Við vorum duglegar að hvetja hvora aðra áfam og gátum rætt mjög opið um þær tilfinningar sem við vorum að fara í gegnum. Við vorum óhræddar við að segja hvorri annarri frá því ef við vorum þreyttar eða latar og þá gátum við hvatt hvora aðra áfram. Það munaði virkilega miklu og hjálpaði svo sannarlega,“ segir Valgerður.
Gefandi að sjá aðra ná markmiðum sínum
„Ég hef ekkert fengið nema jákvæð viðbrögð frá fólki. Fyrst um sinn þá fékk ég margar spurningar um á hvaða prógrammi ég væri eiginlega, en um leið og ég útskýrði út á hvað þessi áskorun gengur, að mínu mati, þá var fólk virkilega áhugasamt.“
„Eftir því sem liðið hefur á áskorunina, því hún vatt aðeins upp á sig hjá mér, þá hef ég fundið fyrir miklum stuðning, fengið mikið hrós og þetta brölt í mér hefur hvatt marga til að byrja sjálfir. Það er svo gífurlega gefandi að sjá aðra ná markmiðum sínum, það er eitt af því sem hvetur mig einnig áfram. Ef að ég get verið fyrirmynd og hvatt aðra til að taka ákvörðun um að setja sjálfan sig í fyrsta sæti, þá tek ég því hlutverki fagnandi og legg mig alla fram,“ segir Valgerður.
Hreyfing eykur lífsgæði
Valgerður segir að hún hafi alla tíð verið í ágætu formi. „Ég æfði og keppti lengi í frjálsum og hef alltaf verið eitthvað á hreyfingu eftir að ég hætti að æfa þær reglulega. En síðustu ár hefur hreyfingin aðeins vikið fyrir öllu öðru í lífinu, því miður. Þessi áskorun hefur þar af leiðandi hjálpað mér af stað aftur. Hún hefur hjálpað mér að finna hversu mikilvæg hreyfing er fyrir mig til að ég geti verið sem best tilbúin í mitt daglega líf.“
„Hreyfing snýst ekki alltaf um vigtina, hvort sem það er að lækka þessa tölu sem við sjáum eða að hækka hana. Hún snýst heldur ekki um að hlaupa hraðar, lyfta þyngra, hoppa hærra og allt það. Hreyfing snýst líka um að auka lífsgæðin, að eiga auðveldra með verkefni daglegs lífs. Ég fæ ekki í bakið lengur við að ryksuga, ég get borið troðfulla innkaupapoka, ég haldið á stráknum mínum upp í rúm þó hann sé að verða 9 ára. Þetta eru verkefnin sem skipta okkur máli, daglega lífið,“ segir Valgerður.
Mesti munurinn andlega
„Andlega finn ég mesta muninn. Ég er ekki feimin við að viðurkenna að í upphafi hafði ég ekki meiri trú á mér en svo, að ég þorði ekki að taka nema 30 daga til að byrja með. Þegar ég kláraði það þá bætti ég 30 við og svo loksins þegar ég kláraði dag 60 þá þorði ég að ákveða að fara alla leið í 100. Það var samt ekki fyrr en í kringum dag 70 sem ég fann að ég náði ég að sanna fyrir sjálfri mér að ég get það sem ég ætla mér. Ég fékk trú á sjálfa mig, sem er eitthvað sem maður týnir stundum. Að hafa trú á sjálfum sér og því sem maður getur gert er svo ótrúlega magnað veganesti.“
Lítill neisti sem kviknar
„Það er annað sem ég finn svo vel sem er kannski aðeins erfitt að útskýra. Ég hef upplifað það að í hvert skipti sem þú tekur ákvörðunina um að fara af stað þá kviknar lítill neisti innra með þér, svona eins og það virkist einhver orka. Þetta gerist sérstaklega þegar manni langar ekkert af stað en gerir það samt. Hversu oft hefur maður legið í sófanum og ekki nennt á æfingu, horft á allan þvottinn og fundist maður ekki hafa tíma.“
„Við erum ótrúlega dugleg að finna afsakanir fyrir því að setja okkur ekki í fyrsta sæti. Oft í kjölfarið á þessu þá rífum við okkur niður, við erum alltaf að bregðast á öllum vígstöðvum og svo framvegis, við förum að tengja neikvæðar tilfinningar við okkur sjálf. En í hvert skipti sem við förum af stað þegar við nennum ekki, þá náum við að tengja jákvæðar tilfinningar við okkur sjálf, verðum stolt af okkur, brosum jafnvel til okkar í speglinum. Þeim mun oftar sem við tökum þessa ákvörðun því stærri verður neistinn innra með okkur, sem endar með því að það kemur ekkert annað til greina en að fara af stað, þó að klukkan sé orðin miðnætti, þó að það sé stormur og stórhríð. Ég hef aldrei séð eftir því að fara af stað, mér líður alltaf betur þegar ég er búin,“ segir Valgerður.
Hausinn léttari
Aðspurð hvað fær Valgerði til að halda áfram segir hún að líklega eigi gamla góða þrjóskan sinn þátt í því að hún er komin svona langt. „En auðvitað eru það líka þessar breytingar sem ég finn sem hvetja mig áfram. Það er svo ótrúlega margt sem ég hef lært um sjálfa mig á þessu ferðalagi.“
„Lífið færir manni alltaf verkefni og síðastliðið ár hef ég fengið nokkur slík og á þeim stundum fann ég hversu mikilvægt það var mér að hreyfa mig og þá sérstaklega úti í náttúrunni. Ég næ betur að vinna úr hlutum ef ég er í tengslum við náttúruna. Þegar það er fellibylur í höfðinu á manni þá er ekkert betra en að fara út í krefjandi veður og berjast á móti því, berjast í gegnum rok og rigningu, ég lofa að þú verður 100 kg léttari í höfðinu þegar þú kemur heim aftur.“
Lærði að meta göngutúra í áskoruninni
Valgerður hefur stundað fjölbreyttar æfingar síðan hún hóf áskorunina. „Ég er alin upp í frjálsum íþróttum og finn að ég leita mikið í þannig æfingar aftur. Til dæmis stuttir sprettir og þrek, tröppuæfingar, hopp og smá lóð þá er ég alsæl. Ég hleyp líka mikið úti, bæði innanbæjar og svo eru hlíðar Ingólfsfjalls og Silfurbergið í miklu uppáhaldi. Rólegir göngutúrar í hverfinu eða úti í náttúrunni, inni í skógi eða upp á fjall eru líka dásamlega nærandi og nauðsynlegir. Ég lærði í raun ekki að meta göngutúra fyrr en ég byrjaði í þessari áskorun, en elska þá núna. Mér finnst líka gaman að synda og hjóla, og gerði töluvert af því í sumar.“
Hollt að prófa nýja hluti
Valgerður segist efast um að það sé einhver hreyfing sem hún myndi ekki gera. „Mér finnst gaman að prófa nýja hluti varðandi hreyfingu, ég held að það sé hollt fyrir mann að prófa eitthvað sem maður hefur ekki prófað áður. Það er skemmtilega ögrandi að vera lélegur í einhverju. Það er þroskandi að henda sér út fyrir þægindarammann annað slagið og takast á við þær tilfinningar sem fylgja því.“
En hvaða ráð hefur Valgerður fyrir þá sem vilja feta fótspor hennar?
„Aldrei missa trúna á þig, haltu áfram. Þó að það detti út einn dagur, haltu áfram. Þegar þú nennir alls ekki af stað, farðu samt og upplifðu neistann sem kviknar. Þegar erfiðu dagarnir koma ekki vera feiminn að segja frá því, ég lofa að þú finnur stuðning úr óvæntustu áttum. Ég hvet alla til að leggja sig fram við að kynnast sjálfum sér, þið gætuð komist að því að þið eruð bara gjörsamlega frábær alveg eins og þið eruð,“ segir Valgerður að lokum.