„Aðgerð sem þessi mun breyta lífi mínu“

Bryndís Brá Liljudóttir. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Nýlega birtist auglýsing í Facebook-grúppunni Íbúar á Selfossi sem vakti athygli margra. Þar auglýsti Bryndís Brá Liljudóttir prjónadót til sölu, þar sem hún er að safna fyrir brjóstaminnkun.

Blaðamaður sunnlenska.is gat ekki annað en dáðst að kjarki og þori Bryndísar fyrir að vera svona opinská með aðgerðina.

Bryndís féllst á að veita sunnlenska.is viðtal, meðal annars til að minnka fordóma fólks og opna umræðuna um þau vandamál sem fylgir því að vera með of stór brjóst.

„Ég er að fara í brjóstaminnkun vegna þess að ég er með mjög stór brjóst en ég er í brjóstahaldarastærð O. Það er mjög erfitt að finna sér fallegan og góðan haldara í svona stórum stærðum. Að finna föt sem passa er einnig erfitt. Maður fer oftast í það að vera bara í of víðum peysum til að fela brjóstin,“ segir Bryndís.

„Að vera með svona stór brjóst fylgir svakaleg krónísk vöðvabólga og miklir bakverkir. Ég á erfitt með að standa upprétt og labba oftast með kryppu því að brjóstin eru svo þung. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað brjóstin eru þung í raun og veru.“

Milljóna króna aðgerð
Bryndís segir að hún sé búin að hugsa um þessa aðgerð síðan hún var á fermingaraldri en hún er þrítug í dag. „Þegar ég fermdist var svakalegt vesen að finna kjól sem var fallegur og hentaði stórum brjóstum.“

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara núna í aðgerð er einföld – ég get ekki gert líkamanum mínum það að burðast með þetta lengur. Þessi aðgerð er að kosta um milljón, plús mínus. Miðað við það sem mér var sagt þarf að vera undir vissum BMI stuðli og þarf að fjarlægja x mikið af hvoru brjósti til að fá aðgerðina niðurgreidda að fullu.“

„Maður gæti mögulega fengið smá niðurgreitt en það virðist vera mjög misjafnt. Mér skilst einnig að það sé mjög löng bið í niðurgreiddar aðgerðir. Ég fæ tilboð í mína aðgerð á næstu dögum,“ segir Bryndís en hún mun hitta skurðlækninn sem framkvæmir aðgerðina nú í vikunni.

Helst karlmenn sem eru skilningslausir
„Ég hef alltaf verið opin við fjölskyldu og vini að mig langi í þessa aðgerð og því tóku þau þessu öllu vel. Ég hef bara fengið góð viðbrögð og ábendingar og ráð á grúbbum á Facebook þar sem söfnunin er.“

Þrátt fyrir almennt góðar undirtektir þá hafa einhverjir karlmenn verið með hrútskýringar á samfélagsmiðlum. „Þeir virðast vera nokkrir sem hafa skoðun á þessu. Þá annað hvort að ég sé bara flott eins og ég er eða þá akkúrat í hina áttina, að ég eigi bara að grenna mig þá fari brjóstin. Annars hafa viðbrögðin frá ókunnugum almennt verið góð.“

Brjóstaminnkun á ekki að vera tabú
Bryndís er full tilhlökkunar fyrir aðgerðina og vonast hún til þess að komast í hana í sumar eða haust. „Aðgerð sem þessi mun breyta lífi mínu til hins betra. Ég mun öðlast betra líf og bara eiga auðveldara með daglegt líf.“

„Sumum finnst þessi aðgerð vera tabú en mér finnst það ekki og mér finnst að það ætti tala meira um aðgerðir af þessu tagi því ég veit það eru svo margar konur sem langar í þessa aðgerð en láta verðmiðann stoppa sig. Einmitt þess vegna henti ég af stað söfnun og er að prjóna og selja til að fjármagna mína aðgerð.“

Bryndís hefur prjónað í á annan áratug og kann vel til verka. „Ég er með eitthvað tilbúið á lager en er einnig að prjóna eftir pöntunum. Það sem er vinsælast hjá mér núna eru peysur, húfur og hárbönd. Ég er bæði að gera barna- og fullorðinspeysur. Ég hef haft áhuga á handavinnu síðan í grunnskóla og hef ekki stoppað í prjóni síðan í 8. bekk.“

Viðbrögðin vonum framar
Bryndís prjónar undir merkinu Prjónamæðgur. „Mamma kenndi mér að prjóna og við ákváðum að slá í þetta verkefni saman. Hún hjálpar mér að prjóna því eftirspurnin varð mikið meiri en ég bjóst við við. Við erum búnar að prjóna saman í sirka átta ár.“

Óhætt er að segja að prjónavörurnar frá prjónamæðgum hafi slegið í gegn en þær þykja bæði vandaðar og fallegar. Bryndís segir að söfnunin hafi gengið vonum framar.

„Það hafa komið mikið fleiri prjóna-pantanir inn en ég bjóst við. Ég er komin með alveg 4-6 vikna biðlista en það virðist ekki fæla fólk frá. Fólk kaupir og bíður rólegt eftir að ég sendi þeim mynd af verkinu og þá getur fólk komið að sækja eða ég sendi á viðkomandi,“ segir Bryndís að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja söfnun Bryndísar lið geta haft samband í gegnum Facebook-síðuna Prjónamæðgur.

Fyrri greinSelfoss vann toppslaginn
Næsta greinSlæmar holur á Hellisheiði