Aðgerðarstjórn almannavarna á Suðurlandi fundaði í dag um stöðuna og áhrif herts samkomubanns vegna COVID-19.
Framundan er ein stærsta ferðahelgi ársins og væntanlega hafa mjög margir stefnt á ferðalög nú um helgina. Veðurspá fyrir landið er ekki með besta móti og lítið sem ekkert ferðaveður næsta sólarhringinn á Suðurlandi. Mörg tjaldsvæði eru nú þegar nánast full miðað við þær takmarkanir sem taka gildi um hádegi á morgun, þann 31. júlí.
Í tilkynningu frá aðgerðarstjórn er minnt á samkomutakmarkanir og að fólk tryggi að ætlaður áfangastaður sé ekki fullbókaður eða lokaður, áður en lagt er af stað.
„Aðgerðarstjórn hefur áhyggjur af ástandinu og hvetur því fólk til að vera heima yfir helgina og njóta samvista við sína nánustu,“ segir í tilkynningunni.