Lögreglan hefur ákveðið að hætta björgunaraðgerðum við Þingvallavatn í dag en til stóð að koma flugvélinni TF-ABB uppúr vatninu.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að ísinn á vatninu sé nú upp undir 4 sm þykkur og það sem reynt er að brjóta leggur jafnharðan.
Hífing á vélinni við þessar aðstæður hefur í för með sér umtalsverða hættu fyrir kafara, hættu á tjóni á vélinni með tilheyrandi röskun sönnunargagna og hættu á að olía og eldsneyti sem eftir er á henni smitist út í lífríkið. Því hefur aðgerðum verið frestað um sinn.
Búðirnar á bakka vatnsins verða teknar saman í dag og fluttar í burtu en í framhaldinu verða gerðar áætlanir um björgun vélarinnar og ráðist í þær þegar vatnið er opið og veður leyfir. Óvíst er hvenær það getur orðið.
Fjölskyldur þeirra sem létust í þessu hörmulega slysi hafa beðið lögreglu um að koma, fyrir þeirra hönd, einlægum þökkum, kærleik og aðdáun til allra sem lögðu hönd á plóg hvar sem er í ferlinu.