Viðrunarfundur, með aðkomu sálfræðings, verður haldinn í dag í Vík í Mýrdal með þeim aðilum sem komu hinum slösuðu til bjargar í banaslysinu á brúnni yfir Núpsvötn í morgun.
Þetta kemur fram fréttatilkynningu frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Þrír létust í slysinu og voru fjórir fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.
Neyðarlínunni bárust boð um slysið kl. 9:42 í morgun. Lögreglumaður frá Kirkjubæjarklaustri var fyrstur á vettvang og rétt á eftir hjúkrunarfræðingur frá heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri, síðan komu allir tiltækir sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri á vettvang en aðstæður þar voru afar erfiðar.
„Aðkoman var hræðileg að þessu slysi að sögn sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga og lækna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Fáliðað var um tíma á vettvangi en fljótlega bættist í bjargir á slysstað þegar bættist í hóp lögreglumanna, heilbrigðsstarfsmanna, sjúkraflutingamanna og björgunarsveitarfólks ásamt slökkviliði með tækjabúnað,“ segir Herdís.
Sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar og læknar komu síðan á vettvang frá Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði og frá Hvolsvelli auk sjúkraflutningamanna frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi sem komu með þyrlu Landhelgisgæslunnar á vettvang.
Bjarki Vilhjálmur Guðnason sjúkraflutningamaður hjá HSU á Kirkjubæjarklaustri var aðhlynningarstjóri á vettvangi og Þorsteinn Kristinsson lögreglumaður var vettvangsstjóri.
Fyrir réttu ári síðan, á þriðja degi jóla, varð alvarlegt rútuslys í Eldhrauni vestan við Kirkjubæjarklaustur.
Herdís segir það koma enn á ný í ljós hve gott og faglegt samstarf milli heilbrigðisstarfsmanna og sjúkraflutinga HSU, lögreglu og björgunarsveita á Suðurlandi skilar framúrskarandi björgunarstarfi við afar erfiðar aðstæður.
„Ljóst er að aðkoman að slysinu við brúna yfir Núpsvötn var afar erfið. Verulega tók á alla hlutaaðeigandi björgunaraðila að sjá hversu illa fólkið var slasað. Nauðsynlegt er að skoða hvernig má styrkja bjargir á þessu svæði með sívaxandi umferð ferðamanna og fara yfir búnað og bjargir á fjölsóttasta ferðamannasvæði á Íslandi,“ segir Herdís ennfremur.