Tvær fjölskyldur frá Úkraínu eru komnar á Hvolsvöll en sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað á dögunum að það myndi taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.
Nú þegar eru tvær fjölskyldur komnar, tvær konur með samtals þrjú börn en þau eiga fjölskyldutengsl í sveitarfélaginu. Þau hafa komið sér vel fyrir í húsnæði á Hvolsvelli sem íbúar á svæðinu buðu til afnota, börnin byrja brátt í skóla og fjölskyldurnar eru að aðlagast lífinu hér hægt og rólega.
Í frétt frá Rangárþingi eystra eru fjölskyldurnar boðnar hjartanlega velkomnar og einnig kemur fram að íbúar í sveitarfélaginu hafi brugðist vel við þegar auglýst var eftir húsnæði, aðföngum og annars konar aðstoð fyrir flóttafólkið og fjölmargir höfðu samband.