Laust eftir klukkan 2 í nótt komu aðrar tölur úr Suðurkjördæmi en þá höfðu 14.887 atkvæði verið talin.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur með 3.151 atkvæði, 21,4% atkvæða og þrjá þingmenn en flokkurinn fær jöfnunarþingmann í kjördæminu samkvæmt þessu, sem er Ingveldur Anna Sigurðardóttir. Flokkur fólksins er með 2.774 atkvæði, 18,9% og tvo þingmenn.
Samfylkingin bætir við sig þingmanni, er með 2.736 atkvæði, 18,6% og tvo þingmenn, Framsókn með 12,8% og einn þingmann sem þýðir að Sigurður Ingi Jóhannsson er úti, Miðflokkurinn er með 11,7% og einn þingmann, Viðreisn er með 10,7% og heldur sínum eina þingmanni í kjördæminu.
Níundi þingmaður kjördæmisins er Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Samfylkingu, en Sigurður Ingi er næstur inn og vantar 853 atkvæði til þess að fella Ásu Berglindi.
Vegna slæmrar færðar hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið kölluð út til þess að flytja kjörkassa frá Hornafirði á Selfoss. Atkvæðin munu væntanlega berast á Selfoss um klukkan 6 í fyrramálið og þá á eftir að telja.