Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu æfðu vinnubrögð vegna gróðurelda um helgina ásamt áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með áhöfn sinni á þyrlupallinum við Björgunarmiðstöðina á Selfossi og heimsóknin byrjaði á almennu spjalli að vanda þar sem farið var yfir búnað hvers annars.
Þyrlan fór síðan í loftið með fjóra slökkviliðsmenn innanborðs, ásamt áhöfn þyrlu og var flogið að Eyvík í Grímsnesi þar sem æfð var vatnstaka í fötu úr Hestvatni. Vatninu var síðan sleppt á fyrirfram ákveðin svæði. Á leiðinni æfðu menn notkun hitamyndavéla BÁ með tilliti til leitar, björgunar og gróðurelda.
Æfingin var í allastaði vel heppnuð og verður án efa til eflingar samstarfs og samræmingar á vinnubrögðum.