Ærslabelgur sem bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti í júní síðastliðnum að setja upp við Dynskóga í sumar er ekki ennþá kominn upp.
Friðrik Sigurbjörnsson, fulltrúi D-listans í bæjarráði, spurðist fyrir um stöðu málsins á síðasta bæjarráðsfundi.
Geir Sveinsson, bæjarstjóri, upplýsti að Leiktæki & Sport ehf, sem selur Hveragerðisbæ ærslabelginn hafi gengið illa að fá belginn til landsins. Að öllu óbreyttu ætti ærslabelgurinn að vera kominn upp seinni partinn í september.